Erlent

Tugir Íhaldsmanna sagðir tilbúnir að fara gegn Theresu May

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/EPA
Að minnsta kosti áttatíu þingmenn Íhaldsflokksins eru tilbúnir til þess að greiða atkvæði gegn frumvörpum ríkisstjórnar Íhaldsflokksins undir forsæti Ther­esu May um útgönguna úr Evrópusambandinu ef May lætur ekki af stefnu sinni um mjúka útgöngu í málaflokknum.

Í mjúkri útgöngu felst áframhaldandi aðild að tollabandalaginu og innri markaði ESB gegn ýmsum málamiðlunum.

Þessu hélt Steve Baker, fyrrverandi vararáðherra útgöngumála, fram í gær. Baker sagði af sér fyrr á árinu vegna andstöðu sinnar við stefnuna. Í síðustu viku lýsti Boris Johnson, sem hætti í utanríkisráðuneytinu af sömu ástæðu, stefnu May sem sjálfsmorðssprengjuvesti um bresku stjórnarskrána.

Íhaldsflokkurinn heldur landsfund um mánaðamótin. Baker sagðist í gær óttast að útkoma fundarins verði sú að May ætli að ná sínu fram með aðstoð þingmanna Verkamannaflokksins. „Þá held ég að samninganefnd ESB myndi sjá það vel að Íhaldsflokkurinn hefði klofnað í herðar niður.“

Íhaldsflokkurinn hefur 316 þingmenn á þinginu. 326 myndu teljast meirihluti en flokkurinn nýtur stuðnings norðurírska DUP-flokksins og skríður þannig yfir þröskuldinn. Ef áttatíu Íhaldsmenn kysu gegn May er ljóst að hún þyrfti að reiða sig á stjórnarandstöðuna.

Rúmt hálft ár er í útgöngudag, 29. mars. Þótt tiltölulega stuttur tími sé til stefnu er enn margt óljóst um hvernig útgöngu verður háttað.

Enginn endanlegur samningur hefur verið gerður og í ljósi óánægjunnar innan Íhaldsflokksins er ekki víst hvort May myndi ná slíkum samningi í gegnum þingið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×