Fótbolti

Toby Alderweireld: Tap Íslands gegn Sviss ekki gott fyrir okkur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Toby Alderweireld, varnarmaður Tottenham og belgíska landsliðsins, segir að stórt tap Íslands í Sviss hafi ekki verið gott fyrir Belgíu.

Ísland og Belgía mætast í Þjóðadeildinni á Laugardalsvelli annað kvöld og þar á íslenska liðið möguleika á að bæta upp fyrir stórtapið gegn Sviss.

„Við vitum að þetta verður afar erfiður leikur. Ísland á heimavelli er erfitt lið að spila gegn og þeir hafa náð góðum úrslitum hér áður,” sagði Toby í samtali við Stöð 2 fyrir æfingu liðsins í kvöld.

„Auðvitað erum við með mikið sjálfstraust en við verðum að spila afar vel ef við viljum ná í þrjú stig hérna á morgun.”

En eru leikmenn Belgíu saddir eða með full mikið sjálfstraust eftir frábært HM í sumar þar sem liðið endaði í þriðja sætinu?

„Við reynum að komast framhjá því en auðvitað eru allir ánægðir og margir mjög sáttir en nú er ný keppni og í síðasta leik sýndum við að við erum klárir.”

„Þetta er nýtt upphaf og ný leið til þess að sýna okkur sem leikmenn og sem lið. Við erum mjög hungraðir í að ná í þrjú stig á morgun.”

Skellur Íslands gegn Sviss á laugardaginn og segir Toby að þetta sé ekki gott fyrir Belgíu því íslenska liðið mæti af fullum krafti á morgun.

„Ég held að þetta sé ekki gott fyrir okkur. Þeir vilja sýna eitthvað annað á morgun. Þeir eru mun betri en þeir sýndu gegn Sviss.”

„Það er mjög erfitt að spila gegn þeim og þeir eru með mikið af hæfileikum í liðinu. Við erum ekki blindaðir af úrslitunum á laugardaginn. Þeir eru með marga góða leikmenn.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×