Þyrlur Landhelgisgæslunnar, TF-LIF og TF-GNA, sinntu tveimur útköllum í dag. Í öðru útkallinu var kona á Norðvesturlandi flutt á sjúkrahús í Reykjavík og í hinu var slasaður skipverji sóttur um borð í togara. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Klukkan 11:38 barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar beiðni frá Neyðarlínu um að flytja þyrfti konu á Norðvesturlandi á sjúkrahús í Reykjavík vegna bráðra veikinda. TF-LIF var komin í loftið um tuttugu mínútum síðar og flutti konuna á Landspítalann í Fossvogi.
Á meðan TF-LIF sinnti útkallinu á Norðvesturlandi var óskað eftir aðstoð þyrlusveitarinnar vegna slasaðs skipverja um borð í togara sem staddur var um 70 sjómílur suðvestur af landinu. TF-GNA tók á loft frá Reykjavík klukkan 13:14 og var komin að skipinu um þremur korterum síðar. Maðurinn var hífður um borð í þyrluna og komið undir læknishendur í Reykjavík.
Komu veikri konu og slösuðum skipverja undir læknishendur
Kristín Ólafsdóttir skrifar
