Landssamband íslenskra verzlunarmanna segist harma þá ákvörðun VÍS að loka átta þjónustuskrifstofum tryggingafélagsins á landsbyggðinni. Með þessu missi fólk vinnu eða þarf að sækja vinnu á milli landsvæða. Greint var frá því fyrir helgi að alls verði þremur starfsmönnum VÍS sagt upp, öðrum bauðst vinna í nýjum sameinuðum skrifstofum fyrirtækisins.
Þá gerir sambandið athugasemdir við að þessar aðgerðir skuli fyrst og fremst bitna á landsbyggðinni og gerir kröfu um að ákvörðunin verði endurskoðuð.
Greint var frá því fyrir helgi að VÍS hygðist loka rúmlega helmingi skrifstofa sinna og segja upp starfsfólki. Þannig muni VÍS eftir breytingarnar ekki lengur reka útibú á Húsavík, Akranesi, Borgarnesi, Reyðarfirði, Hvolsvelli og í Keflavík.
