Þrír menn voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald um helgina að kröfu lögreglunnar á Suðurnesjum. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Vísi. Samkvæmt frétt RÚV, sem greindi fyrst frá málinu í dag, tengist rannsókn málsins vinnumansali.
Að sögn Ólafs Helga rennur gæsluvarðhaldsúrskurðurinn út á morgun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verður fram á lengra gæsluvarðhald. Rannsókn málsins stendur yfir.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tengist mál mannanna þriggja á Suðurnesjum ekki máli tíu manna sem handteknir voru í dag vegna rannsóknar lögreglu á skjalafalsi. Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir einum manninum en hinum níu var sleppt úr haldi að loknum yfirheyrslum.
Þrír menn í gæsluvarðhaldi vegna gruns um vinnumansal
Kristín Ólafsdóttir skrifar
