Innlent

Fjórir ákærðir vegna tilefnislausra líkamsárása í Hafnarstræti í fyrra

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. Vísir/Kolbeinn Tumi
Fjórir karlmenn á þrítugsaldri hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara fyrir þrjár líkamsárásir sem áttu sér stað í febrúar á síðasta ári. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn mánudag.

Tveimur mannanna er gefið að sök að hafa ráðist að stúlku í Hafnarstræti í Reykjavík, hrint henni á vegg og í kjölfarið í jörðina með þeim afleiðingum að hún tognaði á hné og hruflaðist á höndum.

Strax í kjölfarið á annar þeirra, í félagi við annan mann sem ekki er ákærður fyrir hrindinguna, að hafa ráðist á kærasta stúlkunnar með höggum og spörkum. Hlaut hann heilablæðingu og stóran skurð á hnakka. Er þeim gefin stórfelld líkamsárás að sök vegna þessa.

Þeim sem ákærður er vegna beggja fyrri árásanna er gefin önnur árás að sök í félagi við fjórða manninn. Eru þeir ákærðir fyrir að hafa slegið hann í bak og höfuð með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð og mar á höfði.

Fjallað var um árásirnar skömmu eftir að þær áttu sér stað eftir að Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor og faðir Eyvindar Ágústs Runólfssonar, þess sem mesta áverka hlaut, sagði frá afleiðingum þeirra á Facebook. Virðast árásirnar hafa verið tilefnislausar en upptökur úr öryggismyndavélum komu að gagni við rannsókn málsins.

Eyvindur fer fram á fimm milljónir króna í miskabætur og 55 þúsund krónur til viðbótar vegna útlagðs sjúkrakostnaðar. Aðrir krefjast 1,1 milljónar samanlagt í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×