Þórhildur Sunna spurði Katrínu meðal annars út í það sem sagði í tilkynningu utanríkisráðuneytisins að sérstaklega yrði gætt að því að ekki yrði umhverfisrask vegna æfinganna. Spurði þingmaðurinn hvort að tryggt hafi verið tíu herskip sem muni leggjast hér að bryggju vegna æfingarinnar brenni ekki svartolíu og hvort gert hafi verið mat á umhverfisáhrifum af komu þessara skipa.
Þá spurði Þórhildur einnig út í það hvort að forsætisráðherra fyndist það líklegt til þess að tryggja frið og öryggi Íslendinga að hýsa hér á landi hernaðaræfingu „sem líta mætti á sem beina ögrun við kjarnorkuveldið Rússland.“
Katrín svaraði því til að henni væri ekki kunnugt um að mat á umhverfisáhrifum heræfingarinnar hefði farið fram. Hins vegar væri það svo að það þyrfti að huga að svartolíumengun.

Varðandi svo þann hluta fyrirspurnarinnar sem sneri að friðsamlegum lausnum benti Katrín á að skipulagning heræfingarinnar hefði hafist áður en hún tók við sem forsætisráðherra.
„Heræfingar eru ekki eitthvað sem mér hugnast, enda er háttvirtum þingmanni kunnugt um mína afstöðu og hreyfingar minnar til veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, en þetta er auðvitað hluti af starfsemi bandalagsins,“ sagði Katrín á þingi í dag en umræðuna í heild má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.