Karlmaðurinn sem lést í umferðarslysinu á Reykjanesbraut í Hafnarfirði í gærmorgun var pólskur ríkisborgari á fertugsaldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Maðurinn hafði verið búsettur hér á landi um tíma og starfaði sem iðnaðarmaður. Hann var farþegi í annari bifreiðinni í árekstrinum. Ökumaður bílsins hefur verið úrskurðaður í farbann til 23. nóvember næstkomandi.
Ekki kemur fram í tilkynningu frá lögreglu hvort ökumaðurinn er grunaður um refsiverða háttsemi við akstur.
Lögreglu barst tilkynning um slysið klukkan 5:44 í gærmorgun en bílarnir voru að koma úr gagnstæðri átt. Reykjanesbraut var lokað í um tvo klukkutíma í gærmorgun vegna slyssins á meðan viðbragðsaðilar athöfnuðu sig á vettvangi.
