Körfubolti

Fyrsta tap meistaranna kom í Denver

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Nuggets fyrstir til að leggja meistarana í ár
Nuggets fyrstir til að leggja meistarana í ár vísir/getty
Fjórir leikir voru á dagskrá NBA körfuboltans í nótt og það dró til tíðinda í Denver þar sem ríkjandi meistarar Golden State Warriors voru í heimsókn.

Eftir sigra gegn Oklahoma City Thunder og Utah Jazz í fyrstu tveimur leikjunum kom að tapi hjá meisturunum en leiknum lauk með tveggja stiga sigri Denver Nuggets, 100-98 þar sem serbneska tröllið Nikola Jokic skoraði 23 stig auk þess að taka 11 fráköst.

Það var þó Spánverjinn Juancho Hernangomez sem var hetja Nuggets því hann varði lokatilraun Warriors með tilþrifum en myndband með helstu atvikum leiksins má sjá neðst í fréttinni.

Hvorki gengur né rekur hjá Oklahoma City Thunder í upphafi leiktíðar og tapaði liðið þriðja leiknum í röð þegar Sacramento Kings kom í heimsokn. Russell Westbrook skilaði 32 stigum, 12 fráköstum og 8 stoðsendingum þrátt fyrir afleita nýtingu af vítalínunni og í þriggja stiga skotum.

Þá tókst Houston Rockets ekki að vinna í Staples Center annan daginn í röð því eftir sigur gegn LA Lakers á aðfaranótt sunnudags töpuðu Harden og félagar fyrir LA Clippers í nótt. Rockets án Chris Paul þar sem hann var dæmdur í leikbann fyrir sinn þátt í látunum gegn Lakers.

Að endingu tapaði Cleveland Cavaliers enn einum leiknum þegar þeir fengu Atlanta Hawks í heimsókn.

Úrslit næturinnar

Cleveland Cavaliers 111-133 Atlanta Hawks

Oklahoma City Thunder 120-131 Sacramento Kings

Denver Nuggets 100-98 Golden State Warriors

Los Angeles Clippers 115-112 Houston Rockets

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×