Viðvörunin er í gildi til klukkan 18 í kvöld en nú 980 mb lægð stödd úti fyrir Húnaflóa og í nótt var suðvestan hvassviðri eða stormur á landinu. Von er á rigningu og skúrum í dag auk þess sem búas má við því að það snjói á fjallvegum norðvestan- og austan til.
Veður skánar smám saman í dag þegar lægðin grynnist og fjarlægist landið. Undir kvöld verður vindur orðinn skaplegur víðast hvar, en enn má búast við skúrum eða slydduéljum vestan- og norðanlands.
Næstu nótt er von á að næsta úrkomusvæði færist yfir landið og verður það viðloðandi á morgun, en vindur nær sér þó ekki á strik.
Veðurhorfur á landinu
Suðvestan 15-25 m/s, hvassast á Norðurlandi og hviður við fjöll þar geta orðið meira en 30 m/s. Þurrt austanlands, annars víða skúrir, en él til fjalla norðvestan- og norðantil á landinu. Dregur úr vindi í dag, fyrst um landið vestanvert. Suðvestan 8-13 í kvöld og skúrir eða slydduél á vesturhelmingi landsins. Hiti yfirleitt á bilinu 1 til 6 stig.Vestan 5-10 m/s á morgun og rigning eða slydda með köflum í flestum landshlutum. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast syðst.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:Vestan 5-10 m/s og dálítil væta, en þurrt að kalla norðanlands. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast syðst.
Á þriðjudag:
Fremur hæg breytileg átt, þurrt á landinu og hiti 0 til 5 stig. Gengur í suðaustan 8-13 með rigningu á Suður- og Vesturlandi seinnipartinn og hlýnar heldur.
Á miðvikudag:
Stíf suðvestanátt með skúrum, en bjart um landið austanvert. Hiti 3 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Gengur í ákveðna norðanátt með snjókomu eða slyddu norðantil á landinu, en þurrt sunnanalnds. Hiti nálægt frostmarki.
Á föstudag og laugardag:
Norðlæg átt og él, einkum um landið norðanvert. Kalt í veðri.