Fyrirliðarnir kusu sér leikmenn fyrir stjörnuleik NBA-deildarinnar í fyrra og gera það aftur á þessu tímabili. Nú verður hinsvegar enginn feluleikur í kringum val þeirra eins og fyrir ári síðan.
Það vakti athygli í fyrra þegar NBA-deildin breytti fyrirkomulagi stjörnuleiksins og lét þá tvo leikmenn, sem fengu flest atkvæði, velja sér leikmenn til skiptis. Leikmennirnir sem komu til greina voru leikmenn sem fengu flest atkvæði í árlegri kosningu stuðningsmanna í stjörnuleikinn sem og þeir leikmenn sem þjálfarar völdu til að spila leikinn.
Report: NBA All-Star Game Draft to be televised this year - National Basketball Association News - https://t.co/NlB3L6TX8W
— NBA News Now (@NBANewsNow247) November 7, 2018
Stephen Curry og LeBron James fengu flest atkvæði af öllum leikmönnum á síðasta tímabili og fengu því þetta verkefni. Valið þeirra var aftur á móti á bak við luktar dyr og aðeins fréttist af vali þeirra þegar það var afstaðið.
Nú ætlar NBA-deildin aftur á móti að sjónvarpa vali fyrirliðanna en það er ljóst að aðeins annar þeirra fær þetta hlutverk núna því að þessu sinni spila þeir Stephen Curry og LeBron James báðir í Vesturdeildinni.
LeBron James talaði um það strax eftir valið í fyrra að NBA hefði átt að sjónvarpa því og fyrirkomulagið var mikið gagnrýnt í bandarískum fjölmiðlum. NBA ákvað því að verða við þeim óskum að sýna valið í beinni.
Stjörnuleikurinn fer fram í Charlotte 17. febrúar á næsta ári en kosning fyrirliðanna fer líklega fram annaðhvort 30. eða 31. janúar.