69 ára gamall hollenskur maður hefur höfðað mál í heimalandi sínu svo hann geti breytt fæðingardegi sínum úr 11. mars 1949 í 11. mars 1969.
Vill hann meðal annars breyta fæðingardeginum svo hann geti verið tuttugu árum yngri á stefnumótaforritinu Tinder. Segir hann að með þessu aukist möguleikar hans á að fá stefnumót í gegnum forritið.
„Þú getur breytt nafninu þínu, kyninu þínu svo af hverju ekki aldrinum,“ segir maðurinn, Emile Ratelband.
Búist er við því að dómstóll í borginni Arnhem muni kveða upp dóm í málinu innan fjögurra vikna en engin löggjöf í Hollandi leyfir manneskju að breyta fæðingardegi sínum.
Ratelband rökstyður mál sitt hins vegar á þeim grundvelli að honum sé mismunað vegna aldurs síns; það hafi ekki bara áhrif á hann vegna Tinder heldur eru atvinnumöguleikar hans einnig takmarkaðir. Hann segir lækna sína segja hann í svo góðu líkamlegu ásigkomulagi að hann gæti verið 45 ára.
„Þegar ég er á Tinder og segist vera 69 ára þá fæ ég ekki svar. Þegar ég er 49 ára, með andlitið sem ég hef, þá verð ég í lúxusstöðu.“
