Björgunarsveitir og lögregla ákváðu nú um klukkan 22 í kvöld að gera hlé á leitinni að Guðmundi Benedikt Baldvinssyni. Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, verður ákvörðun tekin um framhald leitarinnar í samráði við lögreglu í fyrramálið.
Guðmundar hefur verið saknað síðan á föstudag. Hann er 55 ára og um 170-175 sentímetrar á hæð. Hann er klæddur í svaran Cintamani-jakka, bláar gallabuxur, svarta skó og með svarta húfu, gráa/ljósa vinnuhanska og bakpoka.
Björgunarsveitir voru boðaðar út síðdegis í dag vegna vísbendinga sem borist höfðu lögreglu í tengslum við málið. Að sögn Davíðs hefur stór hópur björgunarfólks aðstoðað við leitina en mest hafa 248 björgunarsveitarmenn verið að störfum í kvöld.
Leitað hefur verið í efri byggðum Reykjavíkur, aðallega í kringum Norðlingaholt, og hefur sporhundur verið notaður við leitina. Þá hafa björgunarsveitir frá Suðurnesjum og Suðurlandi aðstoðað björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu það sem af er kvöldi en að sögn Davíðs gekk vel að manna leitina.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varðist allra fregna af málinu á tíunda tímanum í kvöld.
Gera hlé á leitinni að Guðmundi

Tengdar fréttir

Lögregla leitar enn að Guðmundi
Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Guðmundar eru beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000.

Lögreglan leitar að Guðmundi
Guðmundur Benedikt Baldvinsson hefur ekki sést síðan á föstudaginn.