Innlent

Fjórir farandverkamenn handteknir á Suðurnesjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Úr Reykjanesbæ. Myndin er úr safni.
Úr Reykjanesbæ. Myndin er úr safni. Vísir/GVA
Einn fjögurra erlendra farandverkamanna sem lögreglan á Suðurnesjum handtók fyrir helgi er sagður hafa tengsl við skipulagðan farandbrotahóp sem er bendlaður við tugi fjársvikamála. Mennirnir eru sagðir farnir úr landi.

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að mennirnir hafi verið á meðal þeirra erlendu karla sem hafi farið á milli húsa á Suðurnesjum til að bjóða þjónustu við þrif undanfarna daga. Fjórmenningarnir voru handteknir í lok síðustu viku. Þeir voru látnir lausir eftir skýrslutökur og yfirgáfu þá land. Grunur var uppi um að þeir hefðu ekki nægjanlegt fé fyrir uppihaldi sínu hér á landi.

Fleiri hópar erlendra manna eru sagðir bjóða fram þjónustu við þrif, málningarvinnu og fleira á svæðinu. Þannig segir lögregla frá íbúa sem samdi við þrjá menn um þrif á innkeyrslu fyrir 40.000 krónur.

Mennirnir hafi rukkað hann um 208.000 krónur eftir að verkinu lauk þrátt fyrir að þeir hefðu gert skriflegan samning um lægri upphæðina. Lögregla segir að mennirnir hafi hrellt íbúann, hringt í hann linnulaust og bankað hjá honum til að fá sínu framgengt. Þeir hafi ekki hætt áreitinu fyrr en íbúinn gerði lögreglu viðvart.

„Lögreglan ráðleggur fólki að eiga ekki viðskipti við menn af þessu tagi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×