Fótbolti

Wenger að taka við AC Milan?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Vísir/Getty
Arsene Wenger er við það að taka við stjórnartaumunum hjá ítalska stórveldinu AC Milan ef marka má heimildir franskra fjölmiðla sem segja Wenger hafa verið í viðræðum við félagið undanfarnar vikur.

AC Milan er í 4.sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði Juventus en forráðamenn félagsins telja liðið ekki vera að taka nægilega miklum framförum undir stjórn Gennaro Gattuso.

Félagið varði háum fjárhæðum í leikmannakaup síðasta sumar en þetta næstsigursælasta félag ítalska boltans vann síðast deildina árið 2011 og hefur ekki hafnað í einu af efstu fimm sætum deildarinnar síðan tímabilið 2012-2013.

Samkvæmt fótboltatímaritinu France Football mun Wenger fá að hafa fullt vald yfir leikmannakaupum félagsins en fari svo að hann verði ráðinn endurnýjar hann kynni sín við Ivan Gazidis. Þeir störfuðu saman hjá Arsenal frá 2009 og þar til Wenger ákvað að láta gott heita.

Gazidis mun taka við stöðu framkvæmdastjóra AC Milan frá og með 1.desember næstkomandi og telja franskir fjölmiðlar líklegt að hans fyrsta verk verði að ganga frá ráðningu Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×