Fréttastofan CNN hafði betur gegn Donald Trump og Hvíta húsinu fyrir dómstólum í dag þegar alríkisdómari dæmdi Hvíta húsið til þess að láta Jim Acosta, fréttamann CNN, fá aftur tímabundið aðgang að húsinu sem blaðamaður.
Dómurinn er ekki aðeins áfangasigur fyrir CNN heldur fyrir fréttamenn almennt þegar kemur að aðgengi þeirra að Hvíta húsinu, en dómarinn í málinu féllst á kröfu fréttastofunnar sem tímabundið kemur í veg fyrir að Hvíta húsið geti meinað Acosta um aðgang að því.
Hvíta húsið bannaði Acosta í síðustu viku eftir að til snarpra orðaskipta kom á milli hans og forsetans þar sem að Trump reiddist Acosta mjög fyrir að spyrja tiltekinna spurninga, meðal annars um Rússarannsóknina svokölluðu.
Acosta, sem er aðalblaðamaður CNN í Hvíta húsinu, er fyrsti blaðamaðurinn sem fært hefur fréttir úr forsetabústaðnum sem hefur verið bannaður þar.
CNN stefndi Trump og öðrum embættismönnum í Hvíta húsinu til ógildingar ákvörðuninni og er dómurinn í dag fyrsti angi málsins sem kemur til kasta dómstóla.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Áfangasigur CNN gegn Trump

Tengdar fréttir

Trump reifst við fréttamann í beinni: „Þetta er nóg, settu niður hljóðnemann“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og Jim Acosta, fréttamaður CNN áttu í snörpum orðaskiptum á blaðamannafundi í Hvíta húsinu nú fyrir stundu eftir að forsetanum mislíkaði spurningar Acosta, ekki síst eftir að Trump var spurður út í Rússarannsóknina svokölluðu.

CNN höfðar mál gegn Trump og fleirum
Vilja að fréttamanninum Jim Acosta verði aftur hleypt í Hvíta húsið og segja bannið brjóta gegn stjórnarskránni.

Hvíta húsið bannar fréttamann CNN sem Trump hellti sér yfir
Hvíta húsið hefur afturkallað passann sem veitir Jim Acosta, fréttamanni CNN, aðgang að blaðamannafundum í forsetabústaðnum.