Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður út í álit sitt á Þjóðadeildinni á blaðamannafundi í dag.
Íslenski landsliðsþjálfarinn er ánægður með nýju keppnina hjá UEFA en hún fer nú fram í fyrsta sinn
„Ég er ánægður með Þjóðadeildina. Þegar maður er í fótbolta vilja menn keppa. Það er skemmtilegra að spila svona leiki en vináttuleiki,“ sagði Erik Hamrén.
Íslenska landsliðið hefur tapað þremur fyrstu leikjum sínum í keppninni en fær tækifæri til að bæta úr því á móti Belgíu á morgun.
„Sem þjálfari hefði ég nú samt viljað nokkra vináttuleiki því ég fór beint í mótsleiki á móti Belgíu og Sviss," segir Hamrén en hann tók við íslenska liðinu aðeins nokkrum vikum fyrir fyrstu leiki Íslands í Þjóðadeildinni.
„Ég er hrifinn af Þjóðadeildinni og fagna því tækifæri að fá fleiri keppnisleiki,“ sagði Erik Hamrén en hann var líka spurður út í viðhorf íslensku landsliðsmannanna til keppninnar.
„Það er ekkert mál að mótivera liðið þrátt fyrir að við erum fallnir. Við erum að fara að spila við besta lið heims," segir Hamrén.
