Þýska fjármálafyrirtækið MainFirst Bank fer með eins prósents eignarhlut í Arion banka, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa bankans, og er fyrirtækið þannig ellefti stærsti hluthafinn í bankanum. Samkvæmt heimildum Markaðarins var MainFirst Bank, sem er umsvifamikill í eigna- og sjóðastýringu, á meðal þeirra fjárfesta sem keyptu hvað stærstan hlut í hlutafjárútboði Arion banka síðasta sumar. Eins prósents eignarhlutur félagsins er metinn á um 1,6 milljarða króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í Arion banka.
Um 200 manns starfa hjá MainFirst Bank en þar af sinna um 60 manns greiningum á evrópskum hlutabréfum, að því er segir í frétt Reuters. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Frankfurt í Þýskalandi en fyrirtækið hefur starfsstöðvar víða í Evrópu, til dæmis í Lúxemborg, Zürich, Lundúnum og París.
Sjóðir á vegum bandaríska eignastýringarfyrirtækisins Eaton Vance hafa á síðustu vikum haldið áfram að bæta við sig í Arion banka og fara nú með samanlagt ríflega 2,6 prósenta hlut. Til samanburðar áttu sjóðirnir um 1,2 prósenta hlut í kjölfar skráningar bankans á hlutabréfamarkað í júní.
Hlutabréf í Arion banka hafa lækkað um 14 prósent í verði frá því verðið náði toppi í byrjun september. Stendur það nú í 80,8 krónum á hlut. Gengi bréfanna hefur hækkað um tæplega 8 prósent frá útboði bankans í júní.
