Körfubolti

Stærsti skellur Lakers liðsins í sögunni á móti Denver

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta var erfitt kvöld fyrir LeBron James og guttana hans í Lakers-liðinu.
Þetta var erfitt kvöld fyrir LeBron James og guttana hans í Lakers-liðinu. Vísir/Getty
Los Angeles Lakers liðið steinlá í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en LeBron James og félagar áttu aldrei möguleika á móti Denver Nuggets á útivelli. Toronto Raptors vann sinn sjötta leik í röð og Atlanta Hawks getur eiginlega bara unnið lið Miami Heat á þessu tímabili.

Paul Millsap, Jamal Murray og Malik Beasley voru allir með 20 stig fyrir Denver Nuggets í 117-85 sigri á Los Angeles Lakers. Þessi 32 stiga sigur er stærsti sigur Denver á LA Lakers í NBA-sögunni en gamla metið var 29 stiga sigur frá árinu 1993.

Þetta var líka fjórði sigurleikur Denver Nuggets í röð en fyrr í vetur var Lakers fyrsta liðið á tímabilinu sem náði að vinna Denver. Kyle Kuzma var stigahæstur hjá Lakers með 21 stig en þeir LeBron James og Brandon Ingram skoruðu báðir 14 stig.







Kyle Lowry var með 24 stig og 6 stoðsendingar þegar Toronto Raptors vann 122-114 útisigur á Memphis Grizzlies. Fred VanVleet skoraði 18 stig fyrir Toronto en hann hitti úr öllum sex skotum sínum í leiknum þar af þremur þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna.

Kawhi Leonard skoraði 17 stig og tók 10 fráköst og Serge Ibaka bætti við 16 stigum í þessum sjötta sigurleik Toronto í röð. Toronto Raptors er með besta árangurinn í deildinni, 18 sigra og aðeins 4 töp.

Marc Gasol var atkvæðamestur hjá Memphis með 27 stig en hann hitti úr 10 af 14 skotum sínum. Mike Conley bætti síðan við 20 stigum og 6 stoðsendingum.









Taurean Prince skoraði 18 stig og nýliðinn Trae Young bætti við 17 stigum og 10 stoðsendingum þegar Atlanta Hawks vann 115-113 útisigur á Miami Heat. Atlanta Hawks var fyrir leikinn búið að tapa sjö útileikjum í röð.

Josh Richardson var stigahæstur hjá Miami með 22 stig en Dwyane Wade skoraði 18 stig. Miami hefur nú tapað sex heimaleikjum í röð. Atlanta Hawks hefur unnið báða leiki sína á móti Miami í vetur en aðeins 3 af 19 leikjum á móti öðrum liðum.







Blake Griffin skoraði 30 stig í 115-108 sigri Detroit Pistons á New York Knicks en Detroit endaði þar með þriggja leikja sigurgöngu New York liðsins.

Úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Denver Nuggets - Los Angeles Lakers    117-85    

Phoenix Suns - Indiana Pacers    104-109    

Memphis Grizzlies - Toronto Raptors    114-122    

Miami Heat - Atlanta Hawks    113-115    

Detroit Pistons - New York Knicks    115-108   

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×