Rúmlega tíu ára þróunarferli og sjö mánaða flugi mun ljúka á Rauðu plánetunni í kvöld, hvort sem InSight lendir eða brotlendir.Vísir/NASA
Vísindamenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna munu reyna að lenda geimfarinu InSight á yfirborð Mars um átta leytið í kvöldið. InSight er meðal annars ætlað að bora undir yfirborð plánetunnar og kortleggja Mars inn að kjarna. Rúmlega tíu ára þróunarferli og sjö mánaða flugi mun því ljúka á Rauðu plánetunni í kvöld, hvort sem InSight lendir eða brotlendir, og mun rannsóknarstarf taka við.
Heppnist lendingin fullkomlega munu vísindamenn NASA þó þurfa að bíða í allt að þrjá mánuði eftir því að hefja rannsóknir sínar, þar sem InSight þarf að koma ýmislegum rannsóknarbúnaði fyrir á yfirborði plánetunnar með vélarmi.
Fylgjast má með útsendingu NASA hér að neðan. Eins og áður hefur komið fram er áætlað að lendingin eigi sér stað um klukkan átta í kvöld, að íslenskum tíma.
Einnig er hægt að fylgjast með Twitter-síðu InSight og samfélagsmiðlum NASA (Twitter og Facebook). Þeir sem eru sérstaklega áhugasamir geta líka skroppið til New York og fylgst með lendingunni, eða brotlendingunni, á gríðarstórum skjá á Times Square. Alveg eins og í bíómyndunum.