Bandaríska körfuboltakonan Jennifer Boucek sló í gegn í íslenska körfuboltanum veturinn 1997-98 og hefur haldið góðum tengslum við Ísland síðan.
Jennifer Boucek heillaði alla upp úr skónum í Keflavík, ekki aðeins með frammistöðu sinni inn á vellinum (20,7 stig, 4,4 stoðsendingar og 5,3 stolnir boltar að meðaltali í leik í deildinni) heldur einnig með viðmóti sínu og gefandi framkomu.
Ævintýri hennar í körfuboltanum voru þó bara rétt að byrja þótt að ferill hennar sem leikmanns hafi endað sem tvöfaldur meistari með Keflavíkurliðinu vorið 1998.
Jennifer Boucek fór í framhaldinu að vinna við þjálfun í WNBA-deildinni, fyrst sem aðstoðarþjálfari en seinna sem aðalþjálfari hjá bæði Sacramento Monarchs og Seattle Storm.
Hún færði sig síðan yfir í NBA-deildina og gerðist aðstoðarmaður hjá Sacramento Kings. Hún vann við uppbyggingu leikmanna liðsins. Boucek var aðeins þriðja konan til að vera í þjálfarateymi í NBA-deildinni en í sumar hélt hún áfram að skrifa nýjan kafla í NBA-sögunni.
Boucek réði sig þá sem aðstoðarþjálfari Rick Carlisle hjá Dallas Mavericks á sama tíma og hún var ófrísk af sínu fyrsta barni.
Dallas Mavericks var tilbúið að vinna með henni þannig að hún gat bæði hugsað um nýfætt barnið sitt sem og starfað sem fyrsti kvenþjálfarinn í sögu Mavericks. Það fylgir líka sögunni að Dallas Mavericks hefur staðið sig mjög vel á tímabilinu og komið mjög mörgum á óvart.
FOX Sports Southwest fjallaði um Jennifer Boucek núverið og um það hvernig hún er að endurskrifa NBA-söguna. Það má sjá þessa skemmtilegu umfjöllun hér fyrir neðan.
.@jboucek is helping forge the way for females in the @NBA after she became the first female coach in @dallasmavs history. #MFFLpic.twitter.com/b8KsY72RKH
— FOX Sports Southwest (@FOXSportsSW) December 5, 2018