Fjórir af þeim níu leiðtogum sjálfstæðissinna í Katalóníu sem eru í fangelsi eru nú í hungurverkfalli. Ætlun þeirra er að mótmæla þeirri meðferð sem þeir fengu hjá spænskum dómstólum. Eftir að yfirvöld Katalóníu lýstu yfir sjálfstæði héraðsins í fyrra tóku Spánverjar yfir stjórn héraðsins og fangelsuðu níu leiðtoga sjálfstæðissinna.
Þeir hafa meðal annars verið ákærðir fyrir uppreisn og misnotkun á opinberu fé. Síðan þá hafa þeir setið í fangelsi og beðið eftir að réttað verði yfir þeim.
Þeir Jordi Sanchez og Jordi Turull tilkynntu á laugardaginn að þeir myndu hætta að borða mat í föstu formi. Það tilkynntu þeir Josep Rull og Joaquim Forn einnig í dag. Þeir hættu að borða í gærkvöldi.
Leiðtogarnir fjórir fara fram á að þeir fái sanngjörn réttarhöld. Ríkisstjórn forsætisráðherrans Pedro Sanchez segir að fjórmenningarnir og aðrir leiðtogar Katalóníu í fangelsi muni hljóta sömu málsmeðferð og allir íbúar Spánar og það feli í sér sanngjörn réttarhöld. Sanchez segði það ekki góðar fréttir að þeir væru í hungurverkfalli en komið væri fram við þá í samræmi við lögin.
Samkvæmt Guardian fara saksóknarar fram á að allir leiðtogarnir verði dæmdir í allt að 17 ára fangelsi nema Oriol Junqueras, fyrrverandi varaforseti Katalóníu. Farið er fram á að hann verði dæmdur í allt að 25 ára fangelsi.
Fyrrverandi leiðtogar Katalóníu í hungurverkfalli
Samúel Karl Ólason skrifar
