Talið er að fjárþörfin til þess að mæta mannúðaraðstoðinni á næsta ári komi til með að nema um 22 milljörðum bandarískra dala, en greining á þörfinni vegna Sýrlands hefur ekki enn verið birt og því talið líklegt að hækka megi fyrrnefnda fjárhæð um þrjá milljaðra dala.
"Kerfi mannúðarmála er í dag skilvirkari en nokkru sinni fyrr," segir Mark Lowcock framkvæmdastjóri OCHA. "Við skilgreinum betur en áður sértækar þarfir og veikleika mismunandi hópa og bregðumst fyrr við þegar hörmungar verða."
Á þessu ári hafa fleiri en áður verið á hrakhólum vegna átaka. Á þremur árum hefur þeim sem neyðast til að yfirgefa heimili sín fjölgað úr 59,5 milljónum í 68,5 milljónir. Á síðustu tveimur árum hefur þeim sem búa við matarskort fjölgað úr 80 milljónum í 124 milljónir.
Í þessu höfuðriti OCHA – Global Humanitarian Overview – koma fram upplýsingar um helstu ástæður mannúðaraðstoðar í heiminum en auk vopnaðara átaka snerta náttúruhamfarir og afleiðingar loftslagsbreytinga um 350 milljónir manna árlega að ógleymdu gífurlegu eignatjóni.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.