Anna Kolbrún hefur verið í brennidepli fjölmiðla að undanförnu enda var hún ein þeirra sex þingmanna sem heyra má í Klaustursupptökunum svokölluðu þar sem heyra má þingmennina tala á ónærgætinn hátt um aðra alþingismenn sem og þjóðþekkta einstaklinga.
Í frétt á DV var fjallað um þátt Önnu Kolbrúnar í samræðunum og er þar vísað í eldra viðtal sem DV tók við hana í sumar. Þar kom fram að hún hafði á árum áður starfað sem þroskaþjálfi á Akureyri.
Í tilkynningu frá Þroskaþjálfafélaginu segir hins vegar að félagið hafi fengið staðfestingu frá Landlækni um að Anna Kolbrún hafi hvorki hlotið menntun né fengið starfsleyfi hjá embættinu sem þroskaþjálfi.
Æviágripinu breytt í dag
Í tilkynningu félagsins segir einnig að æviágripi Önnu Kolbrúnar á vef Alþingis hafi verið breytt. Ef núverandi æviágrip er skoðað má sjá að orðið þroskaþjálfi kemur hvergi fyrir auk þess sem að það kemur fram að að æviágripinu hafi síðast verið breytt þann í dag, 3. desember.Vinstra megin má sjá æviágripið eins og það leit út þann 17. júni síðastliðinn. Hægra megin má sjá ævigágripið eins og það er í dag. Búið er að taka orðið þroskaþjálfi út á tveimur stöðum. Hægt er að draga stikuna fram og til baka til að bera saman útgáfurnar.
Séu eldri útgáfur af æviágripinu skoðaðar sést að í þeirri útgáfu sem uppfærð var þann 15. desember á síðasta ári, skömmu eftir að Anna Kolbrún var kjörin á þing, segir að hún hafi starfað sem þroskaþjálfi við hæfingarstöðina við Skógarlund á Akureyri 2002-2003, auk þess sem hún hafi verið deildarstjóri sérdeildar og ráðgjafi við Síðuskóla á Akureyri, þroskaþjálfi og fagstjóri sérkennslu yngsta stigs í grunnskóla 2003–2011.
Í núverandi æviágripi segir hins vegar að hún hafi aðeins verið starfsmaður við hæfingarstöðina við Skógarlund á Akureyri 2002–2003 auk þess sem búið er að taka út starfsheitið þroskaþjálfi við færsluna um árin er hún starfaði í Síðuskóla.
Í tilkynningu Þroskaþjálfafélagsins er áréttað að starfsheitið þroskaþjálfi sé lögverndað og samkvæmt íslenskum lögum megi þeir einir nota starfsheitið sem hlotið hafa til þess menntun og fengið starfsleyfi frá Landlæknisembættinu.
„Þroskaþjálfafélagið harmar að starfsheitið þroskaþjálfi hafi verið misnotað með þessum hætti enda þótt starfsheitið sé ekki lengur að finna í æviágripi þingmannsins,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir einnig að hið meinta brot hafi verið tilkynnt til Landlæknisembættisins auk þess sem vakin er athygli á því að brot gegn ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn, sem ná til þroskaþjálfa, varði sektum eða fangelsi allt að þremur árum.