Fyrrgreind tvö ár hagnaðist ÍSP samtals um tæplega 868 milljónir vegna bréfa í einkarétti þó að bréfsendingum fækkaði á tímabilinu. Árið 2015 var afkoman jákvæð um 13 milljónir og því talsvert stórt stökk milli ára. Hagnaður ársins 2016 var í raun svo mikill að í fyrra íhugaði Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að afturkalla ákvörðun sína um gjaldskrárhækkun innan einkaréttar.
Á sama tíma var afkoman af samkeppnisrekstri innan alþjónustu neikvæð um tæplega 1,5 milljarða. Stærstan hluta þess, tæplega 1,1 milljarð, má rekja til svokallaðra „Kínasendinga“ sem ekki fást að fullu greiddar vegna alþjóðlegra endastöðvasamninga. Afgangstapið, um 400 milljónir króna, er vegna annarrar samkeppni innanlands. Svar ÍSP við fyrirspurn Fréttablaðsins um sundurliðun tapsins eftir uppruna sendinga var á þann veg að þessar upplýsingar væru ekki teknar saman.

Þar með er þó ekki öll sagan sögð. Lög um póstþjónustu kveða á um að gjaldskrá skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustu að viðbættum hæfilegum hagnaði. Sá hluti hagnaðarins er færður „undir strik“ í yfirliti yfir bókhaldslegan aðskilnað einkaréttar og samkeppnisréttar og frá honum dregin söluafkoma eigna, afkoma dótturfélaga og aðrir liðir.
Sundurliðun á afkomu hvers hluta fyrir sig hefur aðeins einu sinni verið birt. Það var gert í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Willums Þórs Þórssonar og sýndi afkomuna fyrir árið 2014. Sé gert ráð fyrir að hlutfallsskiptingin milli starfsþátta nú sé svipuð og þá eykst hagnaðurinn innan einkaréttar um á annað hundrað milljónir að minnsta kosti. Tapið af samkeppni innan alþjónustu dregst að sama skapi saman um minnst tæpar 400 milljónir.
Það liggur fyrir að ÍSP hefur nýtt fjármuni úr einkaréttinum til að mæta tapi innan samkeppni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa samkeppnisaðilar ÍSP bent bæði PFS og Samkeppniseftirlitinu (SKE) á að þeir telji niðurgreiðsluna fara út fyrir þá heimild sem póstþjónustulögin veita. Bæði sé um háar upphæðir að ræða og þá liggi fyrir að tap sé á einstökum liðum í samkeppnisrekstri innanlands. Það sem af er ári hafa PFS og SKE bent hvort á annað vegna þessa.