Ekki kollektív ákvörðun nefndarinnar
„Við sögðum okkur frá þessu máli, niðurstaðan varð sú en þetta er auðvitað ákvörðun hvers og eins. Ekki kollektív ákvörðun,“ segir Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og formaður forsætisnefndar. Hann segir að hver og einn nefndarmaður þurfi að skoða sitt hæfi í svona málum.
Steingrímur sendi á mánudag frá sér yfirlýsingu þar sem gerð var grein fyrir þessari einstöku stöðu sem upp kom.
Segir nefndina ekki í bobba almennt
En, sé litið til stöðu forsætisnefndarinnar gagnvart þinginu, er ekki einfaldlega svo eðli máls samkvæmt að það er ævinlega hægt að efast um hæfi nefndarmanna og vísa til þess að þeir séu flokkspólitískir andstæðingar, eða samherjar eftir atvikum?„Nei, þetta er mjög sérstaks eðlis og hefur ekkert yfirfærslugildi yfir á almennt hlutverk forsætisnefndar. Alls ekki. Það sem hér kemur við sögu og þannig frá þessum málum gengið á sínum tíma að í raun og veru standa forsætisnefndarmenn hver og einn frammi fyrir sömu stífu hæfikröfunum eins og þeir væru úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi.

Úrskurðir forsætisnefndar geta verið íþyngjandi
Steingrímur segir að í þessu tilviki hafi hins vegar legið fyrir að hann sem forseti þingsins hafi bara verið einn af forsætisnefndarmönnum sem samkvæmt siðareglum getur kveðið upp lokaorðið um siðareglubrot eða ekki.„Og það er úrskurður sem getur verið íþyngjandi fyrir þá sem í hlut eiga og jafnast þannig lagað séð á við úrskurð á stjórnsýslustigi, þó svo að Alþingi sem slíkt falli vissulega ekki undir stjórnsýslulög.“

„Þarna varð niðurstaðan að fela forsætisnefnd mjög sérstakt viðfangsefni og lögfræðingar eru almennt sammála um að það sé enginn vafi um það að hæfnisskilyrði séu jafn stíf og um sé að ræða úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi.“
Málinu verður komið til siðanefndar
Þá er komin upp sérkennilegt staða gagnvart þeim hópi sem um ræðir; stjórnmálamönnum sem beinlínis er það í blóð borið að tjá sig um menn og málefni.„Það þýðir það að menn mega helst ekki hafa sagt nokkurn skapaðan hlut um nokkurt mál. Sem er mjög óvenjuleg staða fyrir kjörna fulltrúa á þingi.“
Steingrímur segir þetta áhugavert mál út frá því sjónarmiði.
„Og við munum örugglega skoða hvort frágangur málsins á sínum tíma sé heppilegur. En það blandast ekki í sjálfu sér inn í það að við finnum leiðir til þess að halda þessu máli áfram, það verða fundnar leiðir til þess og koma því til siðanefndar.“

„Nei, ekki nema við þurfum að setjast yfir það strax í byrjun janúar. Hvaða leiðir eru færastar í þessu, að kalla eftir að gera þurfi breytingar á þingskaparlögunum og kannski á siðareglunum sjálfum. Það eru til úrræði í því og nokkrar leiðir sem koma til greina.“
Segir Ástu Ragnheiði ekki vanhæfa vegna flokkspólitískra tengsla
Varðandi siðanefndina sjálfa, formaðurinn þar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, kemur úr flokkakerfinu. Geta menn sem hugsanlega lenda þar með sín mál þá lýst því yfir að hún teljist vanhæf á þeim forsendum að um sé að ræða pólitískan andstæðing, eða jafnvel samherja?„Nei, Ásta er aldrei vanhæf af slíkum ástæðum. Það er beinlínis kveðið á um að einn af þremur nefndarmönnum skuli hafa reynslu af þingstörfum. Það yrði augljóslega aldrei settur starfandi þingmaður eða sitjandi í þetta. Það liggur því ljóst fyrir að böndin berast að einhverjum með reynslu sem hættur er í stjórnmálum.
Þeir verða ekki vanhæfir af þeim ástæðum, alveg klárlega. Það yrði bara ef viðkomandi einstaklingur hefði úttalað sig um málið, tekið afstöðu til þess einhvers staðar opinberlega.Eins og á við um fræðimennina í sjálfu sér. Ljóst að þessir þrír einstaklingar í siðarnefnd, mættu ekki vera búnir hafa gefið upp sína afstöðu á málinu fyrir fram. Það gæti leitt til vanhæfis. En, það er sjálfstæður þáttur og væntanlega eins með siðanefndina eins og forsætisnefndina, að í grunninn er það hennar hlutverk að fara yfir það hvort einhverjir meinbugir séu á hæfi nefndarmannanna þegar þeir taka til við málið.“
Mál Ágústs Ólafs ekki komið á borð nefndarinnar
Varðandi mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmann Samfylkingar. Hann gerðist sekur um að áreita Báru Huld Beck blaðamann Kjarnans kynferðislega. Hann hefur sagt sig frá þingstörfum um óákveðinn tíma launalaust, en þó ekki sagt af sér þingmennsku.
Í almennum hegningarlögum, 199 grein segir: „[Hver sem gerist sekur um kynferðislega áreitni skal sæta fangelsi allt að 2 árum. Kynferðisleg áreitni felst m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.]“
Hefur þetta mál komið inn á borð forsætisnefndar?
„Nei, ekki mér vitanlega. Nú ætla ég einmitt að bregða fyrir mig betri fætinum og biðjast undan því að tjá mig nokkuð um það.“
Hver sem er getur sent erindi til forsætisnefndar
Skiljanlega í ljósi þess sem á undan er gengið.„En, mér er ekki kunnugt um það. Og mér finnst ég einhvers staðar hafa séð það að nefnd Samfylkingarinnar hafi gefið það út að hún ætli ekki að hafa forgöngu um það. En, það er auðvitað hennar að svara til um það.“
En, varðandi erindi til forsætisnefndar af þessu tagi, getur hver sem er beðið um að mál séu tekin til afgreiðslu á þeim vettvangi?
„Í grunninn getur hver sem er, einstaklingur eða lögaðili sent inn erindi. En, þau þurfa auðvitað að uppfylla ákveðin skilyrði og vera með tiltekið innihald. Erfitt kannski að sjá fyrir sér að einhver aðili algjörlega ótengdur málinu hafi efnisrök fyrir slíku erindi. En, það getur hver sem er í sjálfu sér sent inn kvörtun, tilkynningu eða kæru eða hvað sem við köllum það.“
Steingrímur undirstrikar þó að til að slíkt erindi sé tækt þurfi það að uppfylla ákveðin skilyrði, vera stutt gögnum; rökstutt þannig að það sé tækt til skoðunar.
„Einkamál af því tagi, vandséð hver hefði slíka stöðu. En þegar eitthvað mál er algerlega orðið opinbert, og hver sem er getur lesið atvikalýsingu á prenti, einhver ummæli, þá er það annað. En, rétturinn til að senda inn erindi er ótvírætt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon.