Lögreglan í Marokkó handtók í dag tvo menn í Marrakesh sem grunaðir eru um aðild að morðunum á tveimur norrænum konum. Einn var handtekinn í morgun og því eru þrír í haldi lögreglu vegna málsins og eru þeir allir Marokkómenn. Samkvæmt heimildum Verdens Gang er einn til viðbótar grunaður í málinu.
Hin 28 ára Maren Ueland frá Noregi og hin 24 ára Louisa Vesterager Jespersen frá danmörku voru á bakpokaferðalagi í Atlasfjallgarðinum í Marokkó þegar þær voru myrtar.
Ríkislögreglustjóri Marokkó fer með rannsókn málsins og er það talið benda til þess að málið tengist öfgastefnu, hryðjuverkum og/eða ógn við öryggi þjóðarinnar.
Lík Marenar og Louisu fundust í grennd við bæinn Imlil í Atlasfjallgarðinum í Marokkó á mánudagsmorgun en svæðið er vinsæll ferðamannastaður um hundrað kílómetra sunnan af Marrakech. Þær stunduðu báðar nám við Háskólann í Þelamörk í Noregi og voru saman á mánaðarlöngu bakpokaferðalagi um Marokkó.
Vegfarandi gekk fram á lík þeirra en þær höfðu búið sér næturstað við göngustíg á fjallinu Toubkal. Áverkar eftir eggvopn fundust m.a. á hálsi þeirra en norskir fjölmiðlar greina frá því að þær hafi verið myrtar á hrottalegan hátt.
