Erlent

Ítalska ríkisstjórnin kemur sér saman um ný fjárlög

Kjartan Kjartansson skrifar
Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, (t.v.) með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í síðustu viku.
Guiseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, (t.v.) með Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í síðustu viku. Vísir/EPA
Ríkisstjórn hægriöfgaflokksins Bandalagsins og popúlistaflokksins Fimm stjörnu hreyfingarinnar hefur komið sér saman um ný fjárlög sem flokkarnir búast við að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fallist á. Framkvæmdastjórnin hafnaði fyrri fjárlagafrumvarpi Ítala þar sem hún var ekki talin standast fjármálareglur sambandsins.

Ekkert samkomulag liggur enn fyrir við ESB um fjárlögin. Matteo Salvini, varaforsætisráðherra og leiðtogi Bandalagsins, segir að í frumvarpinu sé kveðið á um niðurskurð sem muni „líklega“ falla í kramið í Brussel, að því er segir í frétt Reuters.

Framkvæmdastjórn ESB taldi frumvarp sem ítalska ríkisstjórnin lagði fram í október ekki draga úr miklum skuldum ríkissjóðs. Ítalir lögðu fram nýtt frumvarp í síðustu viku þar sem gert var ráð fyrir lægri fjárlagahalla sem nemur 2,04% af vergri landsframleiðslu næsta árs.

Samþykkja þarf fjárlög fyrir árslok. Ítalir eiga á hættu refsiaðgerðir af hálfu Evrópusambandsins nái þeir ekki saman um fjárlög sem draga úr skuldum ríkisins.


Tengdar fréttir

Greina frá viðbrögðum vegna fjárlagabrota Ítala

Framkvæmdastjórn ESB mun í dag greina frá hvort sambandið muni beita ítölskum stjórnvöldum refsiaðgerðum vegna brota þeirra á reglum þegar kemur að fjárlögum næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×