„Virkilega ánægður með strákana þó svo að þetta hafi ekki verið gallalaust. Við lögðum upp með að stoppa Kanann þeirra. Gunni og Hörður Axel voru á honum með hjálp frá stóru mönnunum í liðinu frá fyrstu mínútu,“ sagði Sverrir, þjálfari Keflvíkinga, eftir góðan 86-77 sigur á Valsmönnum.
Eins og hann sagði þá lagði Keflavík upp með að stöðva Kendall Anthony sem átti erfitt updráttar eftir að hafa verið óstöðvandi í fyrstu sex leikjum sínum hjá Val.
„Þetta er leikmaður sem hefur spilað á miklu hærra sviði en hér og fyrir þennan leik var hann með hátt upp í 70% þriggja stiga nýtingu sem er galið,“ sagði Sverrir en hans menn náðu að stöðva Kendall sem endaði með 17 stig en var þó einungis með 6 stig eftir fyrstu þrjá leikhlutanna.
„Við vorum búnir að ræða hvað við urðum að gera til að stöðva hann og það varð allt að ganga upp. Strákarnir þurftu að treysta á hvorn annan og það skilaði þessum sigri að stórum hluta,“ sagði Sverrir en Keflavík er nú í bullandi toppbaráttu með 8-2 sigurhlutfall.
