Körfubolti

Síðasta barátta LeBron og Wade

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Félagarnir skiptust á treyjum í leikslok
Félagarnir skiptust á treyjum í leikslok mynd/twitter/nba
LeBron James og Dwayne Wade mættust í hvað verður líklega síðasta skipti á ferlinum þegar Los Angeles Lakers og Miami Heat áttust við í NBA deildinni í körfubolta í nótt.

Wade og James komu báðir inn í NBA deildina árið 2003 og hafa mæst oft á tíðum inn á vellinum saman. Þeir voru samherjar hjá Miami Heat í fjögur ár og komust í úrslitarimmuna öll árin, unnu titilinn saman tvisvar.

Wade ætlar að leggja skóna á hilluna í lok þessa tímabils og skiptust þeir félagar á faðmlögum og treyjum í leikslok.

James skoraði 28 stig fyrir Lakers í leiknum en heimamenn unnu leikinn 108-105. Wade setti niður 15 stig í seinni hálfleiknum en það dugði ekki fyrir Heat sem var að spila þriðja af sex útileikjum í röð.

Los Angeles hefur unnið síðustu fimm heimaleiki sína í röð.



Í Philadelphia höfðu heimamenn í 76ers betur gegn Detroit Pistons í annað skipti á fjórum dögum. Joel Embiid hefur ekki verið upp á sitt besta í síðustu leikjum en hann minnti á sig í nótt með 24 stig. Ben Simmons og Furkan Korkmaz gerðu 18 stig hvor.

Jimmy Butler var stjarna 76ers gegn Detroit á föstudag en hann þurfti frá að hverfa í nótt þegar hann meiddist á nára í fyrri hálfleik. Butler spilaði fyrstu 10 mínútur leiksins án þess að skora áður en hann meiddist.

Síðan Butler kom frá Minnesota Timberwolves í síðasta mánuði hefur hann skilað 21,4 stigi að meðaltali í leik og því högg fyrir Philadelphia að missa hann út. Brett Brown, þjálfari 76ers, gat ekki sagt til um hversu lengi Butler yrði frá í nótt.

Fimm leikmenn voru fjarverandi í liði Boston Celtics sem mætti New Orleans Pelicans, þar á meðal stórstjörnurnar Kyrie Irving, Al Horford og Gordon Hayward.

Það kom þó ekki að sök því Boston sigldi heim 113-100 sigri. Anthony Davis gerði hvað hann gat fyrir gestina með frábærri frammistöðu, hann skoraði 41 stig og tók 7 fráköst.

Irving vaknaði í gærmorgun og fann til í öxlinni og var því tekin ákvörðun um að hvíla. Brad Stevens, þjálfari Celtics, segist þó ekki hafa áhyggjur af Irving til langs tíma.



Úrslit næturinnar:

Indiana Pacers - Washington Wizards 109-101

Philadelphia 76ers - Detroit Pistons 116-102

Boston Celtics - New Orleans Pelicans 113-100

Chicago Bulls - Sacramento Kings 89-108

Milwaukee Bucks - Cleveland Cavaliers 108-92

Oklahoma City Thunder - Utah Jazz 122-113

Dallas Mavericks - Orlando Magic 101-76

Denver Nuggets - Memphis Grizzlies 105-99

Phoenix Suns - LA Clippers 119-123

Golden State Warriors - Minnesota Timberwolves 116-108

Los Angeles Lakers - Miami Heat 108-105

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×