Fótbolti

Inter þarf að spila tvo leiki fyrir luktum dyrum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það verða engir stuðningsmenn á næstu heimaleikjum Inter
Það verða engir stuðningsmenn á næstu heimaleikjum Inter vísir/getty
Inter Milan mun spila næstu tvo heimaleiki sína fyrir luktum dyrum eftir að stuðningsmenn liðsins gerðust sekir um kynþáttaníð í garð Kalidou Koulibaly, varnarmanns Napólí, í gær.

Þá mun Inter þurfa að spila þriðja heimaleikinn með völlinn aðeins hálf fullan, sá hluti vallarins sem hýsir venjulega „öfgastuðningsmenn“ liðsins verður lokaður.

Inter og Napólí mættust í stórleik í gærkvöldi og var apahljóðum beint að Koulibaly. Ástandið var svo slæmt að Carlo Ancelotti, þjálfari Napólí, bað dómarann þrisvar um að stöðva leikinn.

Koulibaly þarf þó einnig að sæta refsingu, hann fer í tveggja leikja bann fyrir hegðun sína í leiknum. Koulibaly fékk gult spjald á 80. mínútu og brást þannig við að hann klappaði dómaranum í kaldhæðni vegna spjaldsins.



Dómarinn gaf honum annað gult spjald og því þurfti Senegalinn að fara af velli. Þrátt fyrir að klappið hafi líklega verið hugsað sem gagnrýni á stuðningsmennina frekar en dómarann mega leikmenn ekki láta svona og hann fer í tveggja leikja bann.

Mikið var um óeirðir í kringum leikinn í gær, stuðningsmaður Inter lést eftir að flutningabíll keyrði á hann í nágrenni við San Siro leikvanginn og stuðningsmaður Napólí var stunginn í ólátum fyrir leikinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×