Innlent

Einn fundinn en tveggja leitað sem rændu mann í hjólastól í Hátúni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögregla hefur haft hendur í hári eins þeirra þriggja sem brutust inn.
Lögregla hefur haft hendur í hári eins þeirra þriggja sem brutust inn. vísir/vilhelm
Einn hefur verið handtekinn en tveggja er enn leitað vegna ráns í íbúð fatlaðs manns í Hátúni í Reykjavík í morgun. Bankað var á glugga hjá íbúa sem opnaði í framhaldinu svalahurð. Þrjú fóru inn í íbúðina og veltu hjólastól mannsins. Var fartölvu mannsins meðal annars stolið ásamt farsíma.

Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að einn hafi verið handtekinn eftir hádegið. Fyrir liggi hverjir eigi í hlut, tveir karlar og ein kona. Atburðarásin liggur nokkuð ljós fyrir en lögregla hefur undir höndum myndefni úr öryggisupptökuvélum. Lögreglan hvetur þá tvo sem enn fara huldu höfði til að gefa sig fram.

Íbúanum heilsast að sögn Guðmundar Páls ágætlega en er nokkuð eftir sig og í sjokki. Hann segir að líklegt megi telja að brotist hafi verið inn hjá honum sökum þess að hann notast við hjólastól.

„Ætli það ekki? Hann er auðveldara fórnarlamb og á erfiðara með að verja sig,“ segir Guðmundur Páll.

Töluverður innbrotafaraldur hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur. Hefur lögregla varað við erlendum aðilum á landinu gagngert í þeim tilgangi að brjótast inn og stela. Innbrot á borð við þetta í nótt þar sem ofbeldi er beitt eru sem betur fer sjaldgæf, að sögn Guðmundar Páls.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×