„Þetta er kostnaðarsamur rekstur þar sem öryggiskröfur eru miklar. Það var því alltaf þörf á mörgum starfsmönnum,“ segir Ingólfur. Hann segir að gestafjöldinn hafi verið nokkuð jafn á síðustu árum, þó að hann væri ekki með nákvæmar tölur á hreinu.
Ingólfur segir að ákvörðun um lokun hafi verið tekin nú þegar til stendur að gera breytingar á austasta hluta verslunarmiðstöðvarinnar þar sem tívolíið hefur verið til húsa.
Taka yfir hluta húsnæðisins
Smárabíó muni taka yfir hluta húsnæðisins þar sem Smáratívolí hefur verið og bjóða upp á þjónustu fyrir hópa og afmæli sem og afþreyingu á efri hæð hússins. Þá verður rekstur barnagæslu á vegum bíósins.Hann segir að Sleggjan verði brátt seld og klessubílarnir munu sömuleiðis loka en að bíóið muni áfram starfrækja lasertag-salina. „Tívolíið verður áfram starfandi út febrúar þannig að við látum engan bilbug á okkur finna og fólki gefst enn færi á að fara í tækin.“
Alls hafa um 25 manns starfað hjá Smáratívolí og segir Ingólfur að mörgum verði boðið að starfa áfram hjá Smárabíó.