Innlent

Innbrotsþjófar hrintu manni úr hjólastól og rændu hann

Birgir Olgeirsson skrifar
Þjófarnir eru ófundnir en vitað hverjir þeir eru.
Þjófarnir eru ófundnir en vitað hverjir þeir eru. Vísir/Vilhelm
Tveir menn og ein kona brutust inn í íbúð manns sem notast við hjólastól á þriðja tímanum í nótt. Hrinti fólkið manninn úr hjólastólnum og rændu eigum hans, farsíma, tölvu og fleiru. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir í dagbók sinni vitað hverjir voru að verki en þau sé ófundin.

Þetta gerðist á þriðja tímanum í nótt nærri Hlíðahverfi en skömmu eftir miðnætti voru tveir menn og ein kona handtekin á veitingahúsi í miðborg Reykjavíkur. Voru þau grunuð um líkamsárás en þau höfðu ráðist á dyravörð, og einnig grunuð um ofbeldi og hótanir gagnvart lögreglu. Voru þau vistuð í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt veitti lögregla bifreið eftirför sem hafði ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu. Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar og tvær ungar konur handteknar. Þær eru grunaðar um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna og ítrekaðan akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Voru þær vistaðar í fangageymslu vegna rannsóknar lögreglu sem tók fram í dagbók sinni að ástand bifreiðarinnar hefði verið áfátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×