Ábending um stöðuna barst Landlæknisembættinu þann 6. desember síðastliðinn. Samdægurs hóf embættið úttekt á stöðu mála með heimsóknum, rýni á gögnum og viðtölum við starfsfólk og stjórnendur, að því er segir í frétt á vef Landlæknisembættisins.
Enn er unnið að skýrslu um niðurstöður úttektarinnar en landlæknir sendi heilbrigðisráðherra minnisblað þann 17. desember með helstu niðurstöðum það sem af er, auk brýnustu ábendingar.
Í minnisblaðinu kemur fram að biðtími sjúklinga sem þurfa innlögn á bráðamóttökunni aukist stöðugt. Biðtíminn er nú orðinn 23,3 klukkustundir að meðaltali miðað við 16,6 klukkustundir í fyrra.
„Dæmi eru um að sjúklingar hafi þurft að bíða innlagnar í allt að 66 klst. og að sjúklingar útskrifist, þ.e. ljúki meðferð, án þess að hafa komist á viðeigandi deild. […] Svo dæmi sé tekið voru 267 sjúklingar þar á einum sólarhring þann 5. desember en þann dag komu 216 manns en fyrir var 51 sjúklingur frá fyrri dögum sem ekki hafði verið hægt að útskrifa,“ segir í minnisblaðinu.

Einnig er salernisaðstæða ekki í samræmi við þarfir og skortur er á einbýlum. Því verði ómögulegt að sinna sýkingarvörnum eins og vera ber, auk þess sem friðhelgi einkalífs er ekki tryggð við aðstæður sem þessar. Aðstæðurnar skerði enn fremur getu deildarinnar til að takast á við hópslys og þá sé alvarlegt að staðan sé svo alvarleg rétt áður en inflúensutímabilið gengur í garð.
Í minnisblaðinu leggur landlæknir til nokkur úrræði til að bæta ástandið.
- Öldrunarheimilið á Seltjarnarnesi verði opnað eins fljótt og verða má. · Opnun sjúkrahótels verði flýtt eins og unnt er.
- Greint verði frekar hver áhrif af þessu tvennu verði og metið í samráði við Landspítala hvort grípa þurfi til frekari úrræða eins og til dæmis að fela til þess bærum aðilum að reka hjúkrunarrými til bráðabirgða.
- Heimahjúkrun og heimaþjónusta verði efld og áhersla lögð á samhæfingu öldrunarþjónustu. Bent var á í nýlegri skýrslu KPMG um mat á InterRAI mælitækjum að hérlendis fer mun lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu til heimahjúkrunar en á hinum norðurlöndunum.
- Til lengri tíma þarf að ráðast í nákvæma greiningu á þörf fyrir hjúkrunarrými, heimahjúkrun og heimaþjónustu. Ennfremur ætti að auka áherslu á heilsueflingu eldri borgara.
- Efla þarf mönnun, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, til skemmri og lengri tíma. Landlækni er kunnugt um að heilbrigðisráðherra hefur þegar lagt fram tillögur til að bregðast við þeim vanda sem að mati landlæknis þolir enga bið.