Innlent

Fullur og með dúfur í skottinu

Baldur Guðmundsson skrifar
Maðurinn virðist hafa verið á fljúgandi ferð.
Maðurinn virðist hafa verið á fljúgandi ferð. Vísir/Vilhelm
Maður var handtekinn í Kópavogi í aðfaranótt miðvikudags í kjölfar umferðaróhapps. Hann er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum. Athygli vegfaranda vakti að skömmu eftir óhappið hófu dúfur að flögra út úr bílnum.

Þóra Jónasdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Kópavogi, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að dúfur hafi verið á vettvangi, en samkvæmt henni hafði bílnum verið ekið á umferðarmerki.

Sjónarvottur sem hafði samband við Fréttablaðið segir að bíllinn hafi virst gjörónýtur eftir áreksturinn, hann hafi tekið niður tvo staura áður en hann nam staðar. Þá hafi ökumaðurinn virst illa til reika og reynt að flýja vettvang. Honum varð ekki kápan úr því klæðinu.

Þóra segir að lögregla hafi haft hendur í hári mannsins og að hann sé grunaður um ölvun við akstur. Hún staðfestir að í bílnum hafi verið búr og að þar hafi verið ummerki eftir fugla, auk þess sem dúfur hafi verið á vettvangi þegar lögreglu bar að garði.

Þóra tekur fram að dúfunum hafi ekki virst hafa orðið meint af, frekar en ökumanninum sjálfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×