Það eru ekki nema þrjú ár síðan að Hollendingurinn ungi, Frenkie de Jong, fór á leik með Barcelona sem áhorfandi. Nú er hann að fara að spila fyrir félagið.
Kærastan hans birti krúttlega færslu á Instagram þar sem þau sjást í stúkunni á Camp Nou þann 30. nóvember árið 2015. Rétt rúmum þremur árum síðar er það staðfest að De Jong sé að verða leikmaður félagsins.
Unnustan skrifar að Barcelona sé draumafélag De Jong og það sé ótrúlegt að fá að upplifa draumana með honum. Hún getur ekki beðið eftir tímanum í Barcelona.
Hinn 21 árs gamli De Jong gengur í raðir Börsunga næsta sumar og mun því klára tímabilið hjá Ajax.
