Bolirnir voru hluti af söfnunarátaki fyrir kynjajafnréttisherferð góðgerðasamtakanna Comic Relief. Á bolnum var áletrunin #IWannaBeASpiceGirl, en á íslensku myndi það útlistast sem #ÉgVilVeraKryddPía.
Bolirnir voru seldir á tæp 20 bresk pund , eða um 3130 krónur og þar af runnu rúmlega 11 pund, eða um 1725 krónur til góðgerðasamtakanna. Starfsfólkinu sem framleiddi bolina í Bangladess voru hins vegar greidd lúsarlaun, eða 35 pence á tímann. Það eru um 54 íslenskar krónur.
Í samtali við Guardian sagði einn starfsmanna verksmiðjunnar, sem er að hluta til í eigu ráðherra í ríkisstjórn Bangladess, að vinnuaðstæður væri hræðilegar.
„Við fáum ekki nóg borgað og við vinnum við ómannúðlegar aðstæður.“

Ekkert bendir til þess að Spice Girls eða Comic Relief hafi vitað við hvaða aðstæður bolirnir voru framleiddir. Í yfirlýsingum beggja aðila sagði að bakgrunnur smásölufyrirtækisins Represent, sem sá um sölu bolanna í nafni Spice Girs, hafi verið kannaður og farið hafi fram úttekt á siðferðisstöðlum fyrirtækisins.
Stuttu síðar hafi Represent skipt um framleiðanda án vitundar meðlima Spice Girls og forsvarsmanna Comic Relief. Fyrirtækið hefur gefið það út að það beri fulla ábyrgð á málinu og kveðst tilbúið að endurgreiða öllum þeim sem keypt hefðu boli af fyrirtækinu.
Þá hafa Spice Girls hvatt fyrirtækið til þess að gefa allann ágóða af braskinu til góðgerðarfélaga sem berjast gegn vinnu við ómannúðlegar aðstæður í verksmiðjum eins og þeirri sem bolirnir voru framleiddir í.
Interstoff Apparels, fyrirtækið sem rekur verksmiðjuna sem framleiddi bolina, segist ætla að hefja rannsókn á málinu, þrátt fyrir að hafa einnig sagt að ásakanir um bág vinnuskilyrði séu „einfaldlega ekki sannar.“