Miðað við stöðuna í milliriðli 1 á HM í handbolta eru líkur á því að markatala muni hafa áhrif á hvaða lið fara áfram í undanúrslit í keppninni.
Þýskaland og Frakkland gerðu jafntefli í riðlakeppninni og eru jöfn að stigum í milliriðlinum með fimm hvort. Þjóðverjar unnu Íslendinga í gær en Frakkar lögðu Spánverja að velli.
Króatar voru í fríi í gær en er eina liðið í milliriðlinum sem er með fullt hús stiga. Króatar vinna því riðilinn með því að vinna sína þrjá leiki í milliriðlinum. Fari svo mun baráttan um annað sæti riðilsins að öllum líkindum standa á milli Frakklands og Þýskalands.
Sem stendur er þrettán marka munur á Frakklandi og Þýskalandi í markatölu, Þjóðverjum í hag. Frakkar eru sjálfsagt meðvitaðir um það fyrir leikinn gegn Íslandi í dag.
Frakkland er ríkjandi heimsmeistari í handbolta og hefur verið með eitt allra besta lið heims um árabil. Ísland er með ungt og afar efnilegt lið en í gær urðu strákarnir okkar fyrir áfalli er ljóst varð að bæði Aron Pálmarsson, fyrirliði, og Arnór Þór Gunnarsson yrðu ekki með í dag vegna meiðsla.
Inn í þeirra stað voru kallaðir Óðinn Þór Ríkharðsson, 21 árs, og Haukur Þrastarson, 17 ára. Leikur Íslands og Frakklands hefst klukkan 19.30 í kvöld.
Markatalan skiptir Frakkland máli

Tengdar fréttir

Aron og Arnór ekki með gegn Frakklandi í kvöld
Haukur Þrastarson og Óðinn Þór Ríkharðsson hafa verið kallaðir í leikmannahóp íslenska landsliðsins á HM í handbolta.

Arnór er svekktur en þakklátur
Arnór Þór Gunnarsson mun ekki koma meira við sögu á HM í handbolta í Þýskalandi.