Innlent

Tjáði lögreglu að hann réði sjálfur hvar hann stoppaði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þá var lögregla kölluð til í tvígang vegna fólks sem rann og datt í hálku.
Þá var lögregla kölluð til í tvígang vegna fólks sem rann og datt í hálku. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í gær ökumann sem mældist á 108 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80. Samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu var ökumanni gefið merki um að stöðva bifreið sína sem hann gerði ekki fyrr en nokkru seinna.

Ökumaðurinn gaf lögreglu þær skýringar að hann myndi „stoppa þar sem hann vildi en ekki þar sem lögreglan vildi“, líkt og segir í dagbók lögreglu. Maðurinn var kærður fyrir hraðakstur sem og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Þá var lögregla kölluð til í tvígang vegna fólks sem rann og datt í hálku. Í báðum tilfellum var fólkið flutt á slysadeild.

Einnig var sinnti lögregla nokkrum verkefnum tengdum ölvun. Þannig var óskað eftir aðstoð lögreglu á slysadeild í Fossvogi en þar var maður til vandræða sökum ölvunar. Manninum var vísað út af deildinni og komið í skjól í Gistiskýlinu.

Þá var lögregla kölluð til á veitingastað í Kópavogi en þar hafði verið tilkynnt um mann í annarlegu ástandi inni á salerni. Var maðurinn að kasta frá sér sprautunálum og krota á veggi en var farinn er lögregla kom á vettvang. Umbúðir utan af sprautunálum fundust á gólfinu, en þó engar nálar, og búið var að krota á vegginn.

Einnig var lögregla kölluð til vegna líkamsárásar í heimahúsi í Hafnarfirði. Einn var vistaður í fangageymslu vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×