Um 10.500 tonn af lambakjöti voru framleidd í síðustu sláturtíð. Strax voru flutt út um 1.300 tonn á erlenda markaði á síðasta fjórðungi síðasta árs.

„Það getur vel verið að haldi svo fram sem horfir verði ekki mikið til af lambahryggjum í sumar. Það liggur alveg fyrir. Ég mun ekki geta skaffað hryggi í því magni sem ég gat í fyrrasumar,“ segir Ágúst Torfi Hauksson „Ég ætla ekkert að mótmæla því að það verði lítið til af hryggjum í sumar.“
Samkvæmt samtölum Fréttablaðsins við aðila sem þekkja vel til sauðfjárframleiðslu telja þeir líklegast að ef fram heldur sem horfir að lambahryggir verði að öllum líkindum búnir í landinu í júní.
Sauðfjárframleiðsla hér á landi er ríkisstyrkt. Telur Ágúst Torfi þá réttlætanlegt að flytja út ríkisstyrkta lambahryggi ef ekki verður síðan nóg til af hryggjum fyrir innlendan markað, það fólk sem niðurgreiðir framleiðsluna?
„Nei. Ég hygg að vandamálið sé meðal annars það að samvinna sláturleyfishafa varðandi slátrun og ráðstöfun kjöts í framhaldi af slátrun hefur ekki verið heimiluð. Þannig að það er engin samvinna milli aðila um hversu mikið er flutt út og hvað er flutt út. Hún er ekki leyfð. Það veldur því að hvert fyrirtæki tekur ákvörðun sjálft. Þá getur það gerst að það sé flutt út of mikið of snemma.“