Innlent

„Gunnlaugur Blöndal og nú ég“

Jakob Bjarnar skrifar
Skólameistari MÍ segir bara að málverkið hafi verið tekið niður og lítið meira um það að segja.
Skólameistari MÍ segir bara að málverkið hafi verið tekið niður og lítið meira um það að segja.
Búið er að taka veglegt olíumálverk af þeim Bryndísi Schram og Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem áratugum saman hékk í matsal Menntaskólans á Ísafirði, niður af veggjum þar. RÚV greindi frá þessu nú fyrr í dag.

„Er búið að taka málverkið niður?“ spyr Pétur Guðmundsson listmálari á Ísafirði blaðamann Vísis. Og hlær dátt. En, hann málaði verkið einhvern tíma uppúr miðri síðustu öld samkvæmt pöntun frá útskriftarárgangi sem svo færði skólanum það að gjöf.   „Ha? Gunnlaugur Blöndal og nú ég. Er það komið niður í kjallara eða stendur til að brenna það? Er ekki besta að ég fái það aftur og máli eitthvað annað yfir það?“

Jafnvel horn og hala á Jón Baldvin?

„Já, eða það gengur náttúrlega ekki að mála skrattann á vegginn,“ segir Pétur og ljóst er að honum þykir þetta bráðfyndið.

Ekki hafði það hvarflað að listamanninum Pétri Guðmundssyni að mynd hans af Jóni og Bryndísi yrði umdeild. Honum finnst það eiginlega hið spaugilegasta mál.
Pétur segir að myndin sé olíumálverk, 1,15 x 90 sentímetrar að hann minnir. „Ekki datt mér í hug að þessi mynd yrði umdeild,“ segir listamaðurinn. Hann málaði myndina eftir nokkrum ljósmyndum sem hann fékk sendar og splæsti saman.

Skólameistaranum ekki skemmt

En, skólameistaranum er ekki eins skemmt og Pétri. Reyndar virðist honum nokkur raun að svara spurningum blaðamanns um hvernig þetta sé til komið. „Það hvarflaði aldrei að mér að þetta yrði eitthvað mál,“ segir Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari MÍ. Hann vísar í frétt RÚV og vill sem minnstu við það bæta sem þar kemur fram. En þar segir að nemandi við skólann, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, sem er í stjórn femínistafélags skólans, hafi farið þess á leit við starfsfólk skólans að verkið yrði tekið niður. Á þeim forsendum að það væri að valda nemendum óþægindum. Við því var brugðist samdægurs.

„Það bara hvarf verkið og ekkert meira um það að segja. Það var bara gert,“ segir skólameistarinn. Þegar nefnd eru ákveðin líkindi við mál sem mjög var til umræðu fyrir skömmu, málverkin sem tekin voru niður í Seðlabankanum, segir Jón Reynir að þeir hefðu bara getað tekið þær myndir niður án þess að ræða við kóng eða prest. „Áttu þeir að ræða það við einhvern? Þetta bara gerðist.“ Skólameistarinn er helst á því að það komi í raun engum við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×