Innlent

Fannst kaldur undir húsvegg og vistaður í fangaklefa

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gengið var fram á einstaklinginn, sem orðinn var kaldur, í miðbænum.
Gengið var fram á einstaklinginn, sem orðinn var kaldur, í miðbænum. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom í gær að einstaklingi þar sem hann svaf undir húsvegg í miðbænum í annarlegu ástandi. Viðkomandi var orðinn kaldur og hafði ekki í nein hús að venda. Var hann því vistaður í fangaklefa. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá komu lögreglumenn auga á tvær mannlausar bifreiðar í Vesturbænum. Við eftrigrennslan kom í ljós að bílunum hafði verið stolið og voru eigendur upplýstir um málið.

Umferðaróhapp varð í miðbænum þar sem ökumaður ók á umfreðarljós. Hann reyndist án ökuréttinda auk þess sem bifreið hans var ekki búin til vetraraksturs.

Þá handtók lögregla einstakling í hverfi 112 og vistaði í fangaklefa þar sem hann var með „almenn leiðindi og óviðræðuhæfur sökum ölvunar“, að því er segir í dagbók lögreglu. Öðrum einstakling var jafnframt ekið heim sökum ölvunar í hverfi 108 en sá gat „enga björg sér veitt úti á götu“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×