Svava Rós Guðmundsdóttir fékk sannkallaða draumabyrjun þegar hún skoraði þrjú mörk í 7-1 sigri Kristianstad gegn Kalmar í sænska bikarnum um helgina. Var þetta fyrsti leikur Kristianstad á tímabilinu og um leið fyrsti leikur Svövu eftir að hafa samið við Kristianstad í haust.
Svava Rós var líkt og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, sem samdi á sama tíma við sænska félagið, í byrjunarliði Kristianstad í fyrsta leik liðsins svo og Sif Atladóttir. Það tók íslensku leikmennina ekki langan tíma að stimpla sig inn en Svava skoraði tvívegis í fyrri hálfleik og fullkomnaði þrennuna í seinni hálfleik. Þórdís komst sömuleiðis á blað á upphafsmínútum seinni hálfleiks.
Gott gengi Svövu fyrir framan markið heldur því áfram en hún deildi þriðja sæti yfir markahæstu leikmenn norsku deildarinnar í fyrra á fyrsta ári sínu í atvinnumennsku.
