Viðskipti innlent

Landsliðskempa stýrir viðskiptaþróun Íslandssjóða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
María Björg Ágústsdóttir.
María Björg Ágústsdóttir.
María Björg Ágústsdóttir hefur hafið störf hjá Íslandssjóðum þar sem hún stýrir viðskiptaþróun félagsins. Greint er frá ráðningu hennar í tilkynningu frá Íslandsbanka þar sem jafnframt segir að María sinni einnig starfi fjármálastjóra 105 Miðborgar slhf. Þá gegnir hún jafnframt hlutverki framkvæmdastjóra fasteignafélagsins FAST-1.

Í tilkynningu er reynsla María reifuð, en hún er sögð hafa starfað í rúman áratug í fjármálageiranum. Til að mynda hafi hún starfað í fjárstýringu Glitnis banka og síðar hjá þrotabúi Glitnis sem forstöðumaður upplýsingamála og reksturs. Þá sat María í stjórn ISB Holding árin 2009-2016.

Hún lauk lauk meistaranámi við University of Oxford árið 2007 í stjórnunarfræðum og BA-gráðu í hagfræði frá Harvard University árið 2006. María hefur lokið námi í verðbréfamiðlun og einnig CAIA®-prófi, sem lýst er sem alþjóðlegri prófgráðu í sérhæfðum fjárfestingum.

Þá er þess einnig getið að María á að baki glæstan feril sem landsliðsmarkvörður í knattspyrnu. Hér á landi spilaði hún með Stjörnunni, KR og Val áður en hún hélt út í atvinnumennsku hjá Örebro í Svíþjóð.

Íslandssjóðir eru dótturfélag Íslandsbanka og stýra eignum sem nema um 266 milljörðum króna. Rúmlega 10.000 sparifjáreigendur og fjárfestar eru auk þess sagðir ávaxta eignir sínar í sjóðum félagsins. Fyrrnefnd Miðborg slhf. reisir nú íbúðir og skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandsreit og FAST-1 lauk nýverið sölu á ríflega 22 milljarða króna fasteignasafni sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×