KSÍ hefur loksins náð samkomulagi við fyrrum landsliðsþjálfarana Heimi Hallgrímsson og Helga Kolviðsson. Samkomulagið náðist 252 dögum eftir að þeir stýrðu liðinu í síðasta skipti.
Ágreiningurinn snérist um árangurstengdar greiðslur til þjálfaranna en menn túlkuðu samningana augljóslega ekki á sama hátt.
Málið hefur verið viðkvæmt og aðilar ekkert viljað tjá sig um málið. KSÍ hefur nú gefið út yfirlýsingu ásamt þjálfurunum þar sem ekki er farið út í nein smáatriði en sagt að allir skilji sáttir.
Yfirlýsingin:
Undirrituðum er ánægja að staðfesta að samkomulag hefur náðst á milli aðila varðandi árangurstengdar greiðslur vegna þátttöku A landsliðs karla í riðlakeppni fyrir HM 2018. Skiptar skoðanir voru um túlkun á tilteknum samningsákvæðum sem nú hefur verið leyst úr með sátt aðila þar um. Aðilar skilja sáttir og þakklátir fyrir farsælt samstarf og óska hvor öðrum velfarnaðar í komandi verkefnum.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ
Heimir Hallgrímsson
Helgi Kolviðsson

