Innlent

Ók á bíla fyrir utan verslun og keyrði burt

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gærkvöldi tilkynnt um eldri ökumann sem ók bifreið sinni utan í tvo til þrjá bíla á bílastæði fyrir utan stórverslun í Hafnarfirði. Ökumaðurinn ók svo af vettvangi en eftirköst málsins eru ekki rakin í dagbók lögreglu.

Á níunda tímanum var svo tilkynnt um bruna á hóteli í miðborginni. Starfsfólk var búið að slökkva eldinn og kom slökkvilið til að reykræsta. Talið er að kviknað hafi í kaffivél á þriðju hæð hótelsins.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í blómaverslun í hverfi 108.  Ekki fengust frekari upplýsingar um málið.

Lögregla sinnti nokkrum verkefnum vegna veðurs en þakrennur og þil á svölum fuku í óveðrinu. Björgunarsveitir voru einnig kallaðar til í nokkrum þeim tilvika sem getið er í dagbók lögreglu.

Þá voru ökumenn stöðvaðir víða á höfuðborgarsvæðinu vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.  Einnig voru skráningarnúmer klippt af tveimur bifreiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×