Vegagerðin hefur hafnað kröfu skipasmíðastöðvarinnar Crist S.A. í Póllandi um aukagreiðslu. Greiðslan er sögð í ósamræmi við samninginn um smíði Herjólfs.
Björgvin Ólafsson, umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar hér á landi, segir í samtali við fréttastofu að skipasmíðastöðin vilji ekki ræða samningaviðræður í fjölmiðlum.
Í ljósi orða Vegagerðarinnar um að samninganefnd hafi farið til Póllands í síðustu viku vekja þau orð Björgvins athygli að engir samningafundir hafi farið fram. Hann segir að lögfræðingar frá Vegagerðinni og dönsku fyrirtæki hafi verið í Póllandi á dögunum. En það hafi hins vegar ekki verið rætt um viðbótargreiðslu sem skipasmíðastöðin hefur krafist.

Of þungur Herjólfur lengdur
Stærsta breytingin við smíði Herjólfs var að gera ferjuna alfarið rafdrifna. Um það var gerður sérstakur samningur.Björgvin nefnir sem dæmi um aðrar breytingar að lengja hafi þurft Herjólf til þess að koma til móts við kröfur um djúpristu. Samkvæmt upphaflegum teikningum hafi skipið verið of þungt, úttekt skipasmíðastöðvarinnar sýni að munurinn hafi að lágmarki verið um hundrað tonn.
Einn möguleiki hafi verið að létta skipið með því að nota dýrt stál sem notað er við smíði herskipa. Þess í stað hafi verið ákveðið að lengja skipið.