Fulltrúar verkalýðsfélaganna Eflingar, VR VLFA, VLFG, Framsýnar og LÍV funduðu enn með Samtökum atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara nú á ellefta tímanum. Fundur hefur staðið yfir síðan klukkan tíu í morgun.
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar staðfestir þetta í samtali við Vísi en verst frekari fregna af fundinum og vísar í fjölmiðlabann. Þá vildi hann ekki segja til um það hvenær fundi ljúki. Aðrir formenn verkalýðsfélaganna hafa ekki svarað símtölum fréttastofu í kvöld.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði í samtali við Mbl á níunda tímanum í kvöld að reynt yrði til þrautar í viðræðum hjá ríkissáttasemjara í kvöld. Haldið verði áfram að funda á meðan aðilar hafi „eitthvað til að tala um“ en Ragnar vissi ekki hversu lengi fundurinn stæði yfir.
Ef samningar nást ekki í kvöld skellur verkfall strætóbílstjóra Kynnisferða, sem eru félagsmenn Eflingar, á í fyrramálið. Gert er ráð fyrir að það standi yfir út apríl, á hverjum degi frá 7-9 á morgnana og 16 til 18 síðdegis en um er að ræða tíu leiðir Strætó.
Þá hefjast verkföll hótelstarfsmanna og rútufyrirtækja á miðvikudag og standa yfir í þrjá sólahringa, að öllu óbreyttu.
