Ýmsum blöskrar ljósmyndin og vilja draga verslunina til ábyrgðar. Þá hefur myndinni verið deilt rúmlega áttatíu sinnum síðan hún var birt um hádegisbil.
Rakel segist fá sams konar myndir sendar oft í viku. Þá eru þetta myndir af alveg óskemmdum mat sem hefur verið settur í gáma fyrir utan hinar ýmsu verslanir. Maturinn er svo færður til urðunar í kjölfarið.
„Það var að vísu búið að taka gulræturnar úr pakkningunum í þetta sinn en maturinn er oftast í alls kyns umbúðum og verður svo sendur óflokkaður til urðunar,“ segir Rakel. Myndirnar komi aðallega frá fólki sem stundar svo kallaða „gámaköfun“ eða „dumpster diving“ eins og það er gjarnan kallað.
„Margir vilja efla þessa vitundarvakningu og vekja athygli á sóuninni,“ segir Rakel.
Hún kveðst undrandi á aðgerðarleysi verslunareigenda í ljósi þess hve umræðunni um sóun hefur fleygt fram meðal almennings.
„Það er fullt af fólki sem gæti nýtt sér þetta en samt endar allur þessi matur, óflokkaður í ruslinu,“ segir Rakel.
Taka beiðnir um matargjafir til skoðunar
Kristinn Skúlason rekstrarstjóri Krónunnar sagði í samtali við Vísi að heilt yfir selji þau allt sem komið er á síðasta séns, en grænmetið sem birtist á myndinni hafi verið ósöluhæft.
Hann segir þau hjá Krónunni hafa það að markmiði að flokka allt sem þau geti flokkað. Sóun frá verslunum hafi minnkað undanfarin ár en einhverju sé þó alltaf hent.
Gámarnir fyrir utan Krónuna eru alltaf opnir og eru því aðgengilegir fyrir þá sem stunda „gámaköfun“.
Kristinn segir að Krónunni hafi aldrei borist beiðni frá samtökum eða einstaklingum um að fá að nýta það sem sett er í gámana.
Hann segir þau þó tilbúin til að taka allar slíkar beiðnir til skoðunar.